Tala við sérfræðinga
CloseMenu
Talaðu við sérfræðinga
close

Það kostar ekkert að hafa samband.

Slys á rafmagnshlaupahjóli

Slys á rafmagnshlaupahjóli

Undanfarið hafa fréttir af slysum á fólki sem voru að ferðast á rafmagnshlaupahjólum (einnig kölluð rafhlaupahjól og rafskútur) aukist nokkuð. Samhliða hefur fyrirspurnum um réttarstöðuna vegna slysa af þessu tagi fjölgað.

Í stuttu máli þá er ekki skylda að kaupa sérstakar tryggingar vegna rafhlaupahjóla, jafnvel þótt þau séu gjarnan notuð í umferðinni þar sem bílar og önnur stærri ökutæki eru á ferð. Því eiga engar sérreglur við um slys af þessu tagi.

Hafi slys á rafmagnshlaupahjóli átt sér stað í frítíma, þá er réttarstaðan almennt sú sama og í öðrum frítímaslysum. Hafi slysið átt sér stað á leið til eða frá vinnu, þá er viðkomandi í sömu stöðu og um vinnuslys hafi verið að ræða. Sé um að ræða árekstur við bíl (eða annað ökutæki sem skylt er að tryggja) þá telst slysið vera umferðarslys.

Í þeim tilvikum þegar hinn slasaði hefur leigt rafhlaupahjólið, er nokkuð spurt um skaðabótaábyrgð leigusalans á tjóninu. Um það gilda almennar meginreglur skaðabótaréttar. Til þess að gera skaðabótakröfu, þarf hinn slasaði að sýna fram á að leigusalinn eigi sök á slysinu, t.d. að hann hafi vitað (eða átt að vita) að hjólið hafi verið bilað og að sú bilun hafi leitt til tjónsins. Erfitt getur verið að standa undir sönnunarbyrði sem þessari. Ef grunur er um að þetta eigi við, er því mikilvægt að hafa samband við lögreglu til þess að rannsókn fari fram.

Athygli er einnig vakin á því að leigjendum rafmagnshlaupahjóla kann að vera gert að skrifa undir yfirlýsingu áður en hjól er leigt, um að þau séu á eigin ábyrgð þegar hjólið er notað. Slík yfirlýsing gæti haft áhrif á sakarmat. Ef skýr sök af hálfu leigusalans hefur verið sönnuð, og um er að ræða atvik sem leigjandi hjólsins gat ómögulega áttað sig á fyrirfram, er hins vegar ólíklegt að yfirlýsingin myndi leiða til brottfalls skaðabótaréttar.

Ef þú lentir í slysi á rafmagnshlaupahjóli, þá geturðu leitað til lögmanna Fortis til að fá ráðleggingar um réttarstöðuna og næstu skref.