Slys í strætó
Því miður kemur það reglulega fyrir að farþegar í strætisvögnum lenda í slysum. Slys eiga sér t.d. stað vegna þess að strætó þarf að leggja af stað, jafnvel þótt farþegar séu enn á ferð um vagninn á leið að sæti. Ef bremsa þarf skyndilega vegna umferðar, geta farþegar misst jafnvægið og fallið við.
Strætisvagnar eru tryggðir eins og ökutæki almennt hér á landi. Farþegar sem verða fyrir tjóni vegna slyss í strætó geta því átt bótarétt vegna þess.
Við höfum orðið vör við það undanfarið, að ef farþegar strætó bregðast ekki rétt við þegar slys hefur átt sér stað, þá geta komið upp vandamál tengd sönnun. Það er lykilatriði þegar bætur eru sóttar vegna líkamstjóns í kjölfar slyss að hægt sé að sanna slysaatvikið.
Í ljósi þessa höfum við hjá Fortis tekið saman þrjú ráð fyrir farþega sem lenda í slysi í strætó:
1. Láttu vagnstjórann vita af slysinu og mögulegum meiðslum.
2. Taktu niður skráningarnr. vagnsins (athugaðu að hér er ekki átt við leiðarnr.).
3. Sendu tilkynningu um að þú hafir slasast í gegnum heimasíðu strætó (eins og síðan er núna er hægt að finna skráningarformið undir notendaupplýsingar og svo ábendingar).
Það er einnig mikilvægt, eins og alltaf þegar slys hefur átt sér stað, að leita til læknis eins fljótt og hægt er til þess að fá viðeigandi meðferð, láta greina áverka og skrá í sjúkraskýrslu. Ef langur tími líður frá því að slys á sér stað, og þar til leitað er til læknis, þá getur það orðið til þess að erfitt sé að sanna að áverki sé afleiðing slyss.