Slys er ekki endilega slys
Fólk áttar sig ekki alltaf á því að hugtakið „slys“ í vátryggingarétti hefur ekki sömu merkingu og það hefur í almennri málvenju. Íslensk orðabók skilgreinir orðið slys sem „óhapp, áfall; atvik sem veldur (stór)-meiðslum eða dauða“ en hefðbundin skilgreining á hugtakinu í vátryggingarétti er önnur og þrengri.
Slys er að jafnaði skilgreint með eftirfarandi hætti í skilmálum slysatrygginga hjá íslensku tryggingafélögunum: „Skyndilegur, utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist án vilja hans“. Öll skilyrði hugtaksins þurfa að vera uppfyllt til þess að atburður teljist vera slys og þar með að bótaréttur sé fyrir hendi. Sömu skilgreiningu á hugtakinu slysi má finna í lögum um slysatryggingu almannatrygginga.
Þessi þrönga skilgreining á hugtakinu slysi kemur fólki oft í opna skjöldu. Skilgreiningin veldur iðulega ágreiningi á milli þeirra sem hafa slasast og tryggingafélaganna. Oftast er deilt um það hvort skilyrðið um „utanaðkomandi atburð“ sé uppfyllt. Af því skilyrði leiðir m.a. að meiðsli sem verða vegna álags eða vegna þess að eitthvað gefur sig í líkamanum, t.d. við að lyfta einhverju þungu, teljast ekki verða vegna slyss. Þá telst það ekki vera „utanaðkomandi atburður“ ef meiðsli leiða af flogi eða yfirliði enda er þá um að ræða innri verkan í líkama þess sem hefur slasast en ekkert utanaðkomandi. Dæmi um það sem telst vera „utanaðkomandi atburður“ er t.d. þegar stigið er hálku sem veldur því að viðkomandi rennur og meiðist.
Það hefur einnig reynt á önnur skilyrði slysahugtaksins. Til að nefna dæmi þá telst það ekki slys ef hinn tryggði meiðist vegna þess að hann kýlir eða sparkar í vegg í reiðikasti enda er skilyrðið um „án vilja hans“ þá ekki uppfyllt. Það reynir einnig reglulega á það hvort skilyrðið um „skyndilegan atburð“ sé uppfyllt þegar meiðsli leiða af eitrun, ofkælingu eða öðrum sambærilegum orsökum sem taka að jafnaði langan tíma að ágerast. Niðurstaðan í slíkum málum er ekki alltaf sú sama, það verður að meta hvert tilvik fyrir sig.
Í sumum skilmálum tryggingafélaganna má finna útvíkkun á hugtakinu þegar um meiðsli á útlimum er að ræða. Þá er búið að fella burt skilyrðið um eitthvað „utanaðkomandi“ þannig að þess er eingöngu krafist að um „skyndilegan atburð“ sé að ræða. Á þetta einkum við um frítímaslysatryggingar sem eru innifaldar í heimilis- eða fjölskyldutryggingum. Þessi útvíkkun er til bóta og leiðir til þess að það er auðveldara fyrir þann sem hefur meiðst að sækja rétt sinn.
Ef þú ert í vafa um hvort þú eigir bótarétt vegna slyss eða ekki, geturðu leitað til lögmanna Fortis til að fá mat á réttarstöðu þinni og ráðleggingar um næstu skref.