Oft uppgötvar fólk ekki fyrr en löngu eftir slys að það eigi rétt á bótum. Stundum vill hinn slasaði ekki hafa samband við lögmann eða tryggingafélag fyrr en það liggur fyrir fullvissa um að tjónið sé varanlegt. Því miður kemur reglulega upp sú staða að fólk byrjar of seint að leita réttar síns, t.d. vegna þess að fyrningar- eða tilkynningarfrestir eru liðnir.
Ef þú hefur lent í slysi, þá eru hér nokkur góð ráð sem er gott að hafa í huga:
- Það er mikilvægt að þú leitir til læknis eins fljótt og kostur er eftir slys og fáir skoðun og ráðleggingar um framhaldið.
- Nauðsynlegt er að geyma frumrit reikninga/kvittana vegna læknis-, lyfja- og sjúkraþjálfunarkostnaðar svo hægt sé að gera kröfu um endurgreiðslu kostnaðar. Stundum þarf að biðja sérstaklega um kvittun með kennitölunni þinni. Ef reikningar/kvittanir hafa týnst, er stundum hægt að fá útprentað yfirlit vegna kostnaðar aftur í tímann.
- Ef fatnaður eða munir skemmdust í slysinu, þá þarftu að geyma munina, því tryggingafélagið getur gert kröfu um að fá þá afhenta áður en þeir eru bættir.
- Það getur verið skynsamlegt að heyra í lögmanni sem sérhæfir sig í slysamálum til að fá mat á réttarstöðunni. Fyrsta símtal er gjaldfrjálst og án skuldbindingar.
Það er fleira sem er gott að hafa í huga. Í sumum tilvikum getur verið skynsamlegt að taka myndir af vettvangi slyssins. Ef um er að ræða slys inni í verslun eða hjá þjónustufyrirtæki, þá er góð regla að láta starfsmann vita af slysinu og biðja um að það sé skráð sérstaklega.
Í sumum tilvikum getur þurft að hringja í lögreglu til að tryggja sönnun um aðstæður á vettvangi slyss. Í ákveðnum tilvikum er það beinlínis lagaskylda. Samkvæmt 14. gr. umferðarlaga er t.d. skylda að tilkynna lögreglu um umferðarslys hafi vegfarandi látist eða slasast í umferðarslysi. Ef þú ert í vafa um þína réttarstöðu vegna slyss, þá geturðu leitað til lögmanna Fortis til að fá mat á stöðunni og ráðleggingar um næstu skref.