Ábyrgð fasteignareiganda vegna slysa
Umráðamenn og eigendur fasteigna bera samkvæmt íslenskum rétti ábyrgð á því að fasteign þeirra sé í góðu ástandi. Þeim ber að tryggja að almenningi stafi ekki hætta af umgangi um eignina eða um nágrenni hennar. Það hefur þá þýðingu að slys sem verða við fasteignir, og leiða af vanrækslu eiganda eða umráðmanns, geta leitt til skaðabótaábyrgðar þeirra. Slík slys geta því verið bótaskyld úr ábyrgðartryggingu viðkomandi fasteignar eða aðilans sjálfs. Getur þetta t.d. átt við um tilvik þegar fólk hefur slasast vegna þess að snjór eða klaki hrynur af þaki fasteignar, vegna hálku við inngang fasteignar eða vegna þess að hlutir fasteignar fjúka af henni í óveðri.
Til þess að skaðabótaskylda stofnist, þarf sá sem verður fyrir slysi við þessar aðstæður að geta sannað að fasteignareigandi eða umráðamaður hafi ekki sinnt skyldum sínum og hafi þannig átt sök á slysinu. Þótt gerðar séu strangar kröfur til fasteignareiganda í þessum efnum, þá getur verið erfitt að sýna fram á að eigandinn eða umráðamaðurinn beri sök á slysinu. Oftast þarf að sýna fram á að umráðamaður eða eigandi hafi vitað af hættunni, eða hann hafi a.m.k. mátt vita af hættunni, t.d. vegna hálku eða augljósra grýlukerta á þaki. Annað skilyrði skaðabótaábyrgðar er að eigandi eða umráðmaður hafi haft raunverulegan möguleika á að bregðast við hættunni, bæta úr og koma þannig í veg fyrir slysið.
Skaðabótaskylda vegna atvika sem þessara er því háð mati á aðstæðum hverju sinni og hvort hægt sé að gera þá kröfu til eiganda eða umráðamanns fasteignar að hann hafi átt að koma í veg fyrir slys. Ef þú telur þig hafa orðið fyrir tjóni vegna vanbúnaðar fasteignar, eða vanrækslu eiganda fasteignar, þá geturðu leitað til lögmanna Fortis til að fá ráðleggingar um réttarstöðu þína og næstu skref.